Eftir áralangar pælingar og nokkrar prófanir þá kynni ég með stolti rauðvínsjóga!
Ég er búin að ganga með þessa hugmynd núna í ábyggilega rétt rúm tvö ár og nú er loksins komið að því að láta hana verða að veruleika.
Hvað er rauðvínsjóga?
Rauðvínsjóga er eins og orðið segir til um, jóga með rauðvíni. Þetta er frekar rólegt jóga sem hentar öllum 20 ára og eldri sem drekka rauðvín, nú eða finnst bara lyktin af því vera góð. Það er engin skylda að drekka rauðvínið en þar sem löglegur áfengisaldur á Íslandi er 20 ára þá framfylgjum við auðvitað því.

Afhverju rauðvín og jóga?
Rauðvín er gott! Jóga er gott! Bara afhverju ekki?
Þetta er líka tilvalið tækifæri fyrir þá sem hafa aldrei mætt í jóga áður að koma og prófa og kynna sér jóga, þótt þetta sé auðvitað örlítið öðruvísi en hefðbundið jóga, þá ef jóga heillar þig alls ekki, kannski gerir rauðvínið það.
Hvernig rauðvín?
Mig langaði til að hafa eitthvað létt en bragðgott, lífrænt og frá einhverjum sem sérhæfir sig í lífeldri ræktun. Ég hafði því samband við Vínnes sem flytur inn vín frá Emiliana, fyrirtæki sem sérhæfir sig einmitt í þesskonar ræktun.
Vínnes samþykkti að taka þátt í þessum viðburði með mér og ætla að bjóða öllum þeim iðkendum sem mæta í rauðvínsjóga til mín (sjá nánar um fjölda hér fyrir neðan) upp á eitt glas í tímanum sjálfum af Adobe Reserva kassavíninu sem fæst í Vínbúðinni.

Emiliana er frumkvöðull þegar kemur að lífrænni- og lífefldri (biodynamic) ræktun. En fyrir tæpum 30 árum síðan var Emiliana hefðbundið vínhús í Chile en þá var sú ákvörðun tekin að breyta framleiðslunni. Markmiðið var að framleiða vín í hæsta gæðaflokki á sama tíma og borin væri virðing fyrir náttúrunni og umhverfinu sjálfu. Vínin frá þeim í dag hafa áunnið sér fjölda viðurkenninga í heimalandinu, sem og alþjóðlegra viðurkenninga sem mæta kröfum neytenda í dag.
Hvernig jóga?
Rauðvínsjóga er frekar rólegur tími og ættu allir, sama í hvernig formi þeir eru, að geta verið með. Í venjulegum jógatíma gerir hver og einn eins og hann getur, þessi tími er alls ekkert öðruvísi nema við höfum smá rauðvínsdreitil um hönd sem hjálpar okkur að dýpka hugleiðsluna og komast mögulega aðeins lengra inn í stöðurnar.
- Tveir tímar verða í boði: kl. 17:30 og kl. 19:00. Hvor tíminn er 45 mínútúr í senn.
- Aðeins 20 manns komast að í tímann og gildir fyrstur kemur, fyrstur fær dýnu.
- Eitt rauðvínsglas fylgir hverri dýnu.
Sjáumst hress á dýnunni!
Namaste.
