Eftir að ég byrjaði í jógakennaranáminu fannst mér ótrúlega gaman að mæta í jógatíma hjá ólíkum jógakennurum og þá sérstaklega gaman að hlusta vel í lok tímans, til að heyra hvernig þeir enda tímann sinn og kveðja.
Flestir ættu að kannast við kveðjuna namaste, en hún er líklega sú algengasta sem maður heyrir í lok tímans.
Nánar um Namaste
Namaste kemur úr Sanskrít sem er tungumál forn Indlands. Orðið er samsett orð, ‘namah’ sem þýðir að hneygja og er fornafni skotið fyrir aftan – ‘aste’ semþýðir “mig til þín”. Eða það er að segja ‘te’ þýðir þér. Því þýðir orðið namaste bókstaflega “Hneygðu mig til þín” – sem ætti þó að þýðast “Ég hneygi mig fyrir þér”.
Merkingin á þó að vera sú að viðurkenna og heilsa tilvist þinni fyrir samfélaginu og alheiminum.
Einnig hef ég líka rekist á þýðinguna “Sál mín virðir þína sál”. Þó þessi kveðja virðist að öllu vera svona virðuleg þá er hún það mikið notuð að merkingin hefur kannski aðeins dvínað með árunum.
Önnur kveðja sem ég heyri stöku sinnum líka, nokkuð lík namaste, er namaskar.
Nánar um Namaskar
Namaskar er samblanda orðanna ‘namah’ og ‘kar’ úr Sanskrít. Orðið ‘kar’ kemur frá orðinu ‘kri’, sem þýðir “að gera”. Því væri þýðing á orðinu namaskar einhvernveginn svona á íslensku: “Ég geri athöfnina að hneygja mig til að sýna virðingu”.
Þegar orðið namaskar er notað er sá sem segir það að lúta æðstu sál sína virðingu. Hann trúir því að allir séu eitt. Það er að segja, hann er ekki beint að segja þetta einungis við manneskjuna sem er fyrir framan sig, heldur til allra sála, þar sem það er aðeins ein sál (‘oneness’). Það er að allir séu eitt, ég og þú og allt í kringum okkur eru guð.
Jai Bhagwan
Jai Bhagwan er einnig kveðja sem notuð er í jógatímum. Þar sem ég var að læra er þetta til dæmis alltaf notað. Ég verð þó að viðurkenna það að ég hafði aldrei heyrt þetta áður en ég fór að stunda jóga í Amarayoga í Hafnarfirði. Eða hvort ég mögulega hafði bara aldrei tekið eftir því áður að þetta væri notað. En eftir að ég fór að pæla í þessu þá heyrði ég alveg nokkra jógakennara í World Class nota þessa kveðju líka sem mér fannst skemmtilegt.
Bein þýðing á ‘Jai’ úr Hindu er sigur eða sigursæll. ‘Bhagwan’ eða ‘Bhagavan’ (einnig skrifað Bhagawan) kemur úr Sanskrít og þýðir “að búa yfir gæfu” eða “búa yfir velmegun”. Getur einnig þýtt eitthvað heilagt eða guðlegt.
En bein þýðing á ‘Jai Bhagwan’ gæti verið eitthvað á þessa leið: “Megi gæfan/velmegunin í þér vera sigursæl” eða “Megi guðlega velmegun í þér vera sigursæl”.
Skemmtilegar pælingar!
