Þessi gulrótarkaka er held ég sú lang besta sem ég hef nokkru sinni smakkað!
Og ég hef prófað all nokkrar svona uppskriftir. Og auðvitað er besti kosturinn líka við hana að hún er 100% vegan. En hún er einnig frekar sykurlítil miðað við aðrar uppskriftir þarna úti.. en þó má einnig skipta út púðursykrinum fyrir gervisætu eins og sukrin mils eða jafnvel að bræða nokkrar döðlur í potti með vatni.

Uppskriftin passar í sirka eitt 16cm form í þvermál eða fóðrar sirka fjóra svanga munna, þannig hún er ekki þessi hefðbundna risastóra kökuuppskrift. En ef óskað er eftir stærri köku sem fyllir tvö 27cm form til að setja krem á milli mætti fjórfalda uppskriftina.
Alltaf þegar ég geri gulrótarköku byrja ég samt á að búa mér til gulrótarsafa með safapressunni minni. Síðan nota ég maukið af gulrótunum til að setja í kökuna. Þannig fær maður sem mest út úr gulrótunum 🙂
Gulrótarkakan – innihald:
- 1 bolli hveiti
- 1/2 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk matarsódi
- 1/4 tsk salt
- 1 tsk kanill
- 1/2 tsk negull
- Sirka 200gr gulrótarmauk eða rifnar gulrætur
- 100gr púðursykur (eða sukrin gold)
- 1 hörfræjaregg (sjá fyrir neðan)
- 1/4 bolli olífuolía
- Nokkrir dropar vanilludropar
- 1/2 msk eplaedik
- Nokkrar valhnetur, smátt saxaðar
Aðferð
- Forhitið ofninn í 180°c og spreyjið form með pam eða kókosolíu spreyji.
- Blandið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda, salti, kanill og negul í skál.
- Bætið gulrótarmaukinu og púðursykrinum út í.
- Næst er að blanda hörfræjareggið. Það er gert með því að setja 1 msk hörfræjarhveiti eða sem sagt fínhökkuðum hörfræjum í bolla með 3 msk af vatni. Leyfið því að standa í smá stund meðan það þykknar.
- Á meðan eggið þykknar bætið olíunni, vanilludropunum og eplaedikinu í skálina.
- Hrærið næst hörfræjaregginu út í.
- Hrærið þessu saman í rólegheitunum og ef deigið er mjög þurrt leyfið því að bíða aðeins meðan gulræturnar bleyta upp í öllu saman. Ef deigið er enn þurrt eftir nokkrar mínútúr er í lagi að bæta örfáum dropum af vatni eða jurtamjólk útí til að festa deigið saman.
- Að lokum er valhnetunum hrært saman við deigið
- Deigið er svo sett í smurða formið og bakað í miðjum ofni í 30 mínútúr eða þar til hægt er að stinga prjón í kökuna og hann kemur hreinn upp.
Vegan ostakrem
Þetta krem er fáránlega gott og það er enginn að fara að fatta að þetta sé vegan ostakrem! Mér finnst best að hafa ekki of mikið krem á kökunni því það er svo sætt, heldur hafa bara þunnt lag yfir. Ef þið viljið meira, þá er bara að margfalda uppskriftina.

Innihald
- 50gr Sheese “rjómaostur” (fæst í Krónunni)
- 30gr jurtasmjör (ég nota Earth balance, fæst í Hagkaup)
- Örfáir vanilludropar
- Sirka 200gr flórsykur
Aðferð
- Byrjið á að hræra “ostinn”, ég nota töfrasprotann minn með þeytaranum og uppháu mjóu skálinni sem fylgir honum.
- Bætið svo “smjörinu” saman við ásamt vanilludropunum og hrærið smá saman.
- Hrærið næst flórsykrinum saman við í smá skömtum, mögulega þarf smá meira eða smá minna. Fer eftir þykktinni sem maður vill á kremið.
- Smyrjið svo kökuna eftir að hún hefur kólnað og njótið!

