Sykurlaus -no bake- Bounty kaka

Við hjónin buðum foreldrunum okkar í kaffi um seinustu helgi til að sýna þeim jólin hjá okkur. En yfir hátíðarnar höfum við verið meira og minna í heimsóknum en enginn kominn til okkar, og því voru foreldrar okkar beggja búin að óska eftir að koma í heimsókn áður en allt skrautið yrði tekið niður.

IMG_20151221_210316
Maine Coon kisna mín hún Rósa og jólatréð okkar

Ég var búin að ákveða fyrir þó nokkru að taka sykurlausan janúarmánuð, bara til að sjá hvernig það færi í mig. Reyna að sneiða framhjá öllum augljósum sykri og viðbættum sykri í matvælum. Þetta hefur verið töluvert erfitt þar sem það er nánast sykur í öllu! Og eins varlega og ég er búin að fara, þá hefur samt verið “eitrað” fyrir mér nokkru sinnum.

En mér tókst að búa til ansi góða sykurlausa boutny köku sem ég gat boðið foreldrunum uppá og þótt öllum kakan ansi góð.

Sykurlaus no bake Bounty kaka

Innihald:
  • 80 ml kókosolía
  • 100 ml þykk kókosmjólk úr dós (ég setti dósina í ísskápinn í nokkra klukkutíma og notaði svo þykkasta partinn sem sest ofan á)
  • 130 gr Sukrin melis (náttúrulega sæta, fæst í flestum matvörubúðum)
  • 300 gr rifinn grófur kókos
  • 150 gr sykurlaust dökkt súkkulaði. Ég notaði VALOR sem fæst í Krónunni.
Aðferð:
  1. Kókosolían og mjólkin eru brædd saman í potti á lágum hita.
  2. Sætan og rifinn kókos er blandað saman í skál.
  3. Innihald pottsins og skálarinnar er blandað saman. Deigið á að vera örlítið blautt.
  4. Smjörpappír settur í tertufat ca. 15 cm í þvermál. Deigið sett ofaní og er þétt á alla kanta með sleif eða skeið. Því næst er þessu stungið í frystinn í ca. hálftíma.
  5. Súkkulaðið er brætt í potti eða örbyglju, ca. 1 tsk af kókosolíu bætt við og hrært saman. Svo er bara að smyrja súkkulaðinu á og leyfa því að harðna.

Kakan geymist í kæli eða frysti.

Kakan er góð eintóm eða með kókosrjóma og ferskum berjum.

Bon apetit!